Nýir búvörusamningar: nokkrar staðreyndir

Viðskiptaráð Íslands hefur gefið út myndasögu sem varpar ljósi á nokkrar staðreyndir um nýja búvörusamninga. Samningarnir eru óhagfelldir fyrir stærstu haghafa í íslenskum landbúnaði: skattgreiðendur, bændur og neytendur.

Skoða má myndasöguna á vi.is/buvorusamningar

Landbúnaðarráðherra mælti á þriðjudag fyrir frumvarpi vegna samninganna. Með samþykkt frumvarpsins væri kerfi sem allir tapa á fest í sessi til næstu tíu ára. Viðskiptaráð hvetur alþingismenn til að hugsa um heildarhagsmuni og hafna frumvarpinu í atkvæðagreiðslu.

Skattgreiðendur bera alla áhættu
Verði frumvarpið að lögum er ríkið skuldbundið til að greiða 13 milljarða króna á ári til landbúnaðarins næstu tíu árin. Þá bjóða endurskoðunarákvæði samninganna einungis upp á aukin fjárframlög. Ekki eru tilgreind markmið sem landbúnaðurinn þarf að uppfylla til að hljóta fullar greiðslur. Hins vegar er kveðið á um aukinn stuðning ef framleiðsla nær ekki ákveðnum markmiðum. Skattgreiðendur sitja því uppi með rekstraráhættu atvinnugreinarinnar.

Bændur í fjötrum lágrar arðsemi
Með búvörusamningunum var litið fram hjá umbótatillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem breið samstaða náðist um. Þar var niðurstaðan að færa stuðning frá sértækum stuðningi við afmarkaðar búgreinar yfir í almennan jarðræktarstuðning – sem yrði helmingur heildarstuðnings. Þannig fengju bændur frelsi til að stunda þann búskap sem þeim hentar best. Í nýjum samningum hækkar jarðræktarstuðningur einungis úr 1% í 5% af heildarstuðningi yfir tíu ár tímabil. Umbæturnar eru því í mýflugumynd.

Þá má finna í samningunum hámark á stuðningi við hvert býli. Bændum er þannig fyrirmunað að stækka bú sín og ná fram aukinni stærðarhagkvæmni. Með þessum hætti er haldið í rómantíska hugmynd um mörg lítil býli – þótt það feli óhjákvæmilega í sér lakari kjör bændastéttarinnar.

Neytendur borga meira fyrir mat
Einnig kveða nýir búvörusamningar á um hækkun tolla á osta. Ef frumvarpið verður samþykkt verða ostar tvöfalt dýrari úti í búð en ef engra tolla nyti við. Á sama tíma og núverandi stjórnvöld vinna að afnámi vörugjalda og tolla vegna skaðsemi þeirra fyrir innlenda neytendur skýtur þessi breyting skökku við.

Viðskiptaráð hvetur alþingismenn til að hafna nýjum búvörusamningum með því að synja frumvarpinu samþykktar. Hagsmunir heildarinnar voru ekki hafðir að leiðarljósi við gerð þeirra. Þeir eru óhagfelldir skattgreiðendum og til þess fallnir að halda íslenskum landbúnaði áfram í fjötrum lágrar arðsemi og lítillar framleiðni. Ef íslenskur landbúnaður á að blómstra á komandi árum þarf nýja nálgun við gerð búvörusamninga.

Tengt efni

Meta þarf áhrif eignarhaldsskorða

Nágrannalönd okkar hafa þróað kerfi í þessum efnum sem við mættum gjarnan hafa ...
26. maí 2020

Eignarhaldsskorður ganga á rétt jarðeigenda

Sérhvert inngrip í markaði eru til þess fallin að skekkja verðmætamat og auka ...
4. mar 2020

Katrín Olga: Þarf samstöðu og vilja til að laga kynjahallann

Í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi fór Katrín Olga Jóhannesdóttir, fráfarandi ...
13. feb 2020