Viðskiptaþing 2014: Vöxtur frá örmarkaði til alþjóðamarkaðar

Arni OddurÁrni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, fjallaði í erindi sínu á Viðskiptaþingi um þróun fyrirtækisins frá örmarkaði til alþjóðamarkaðar. Hann fór yfir sögu fyrirtækisins í stuttu máli, en hugmyndin að baki stofnun Marel kveiknaði við verkefnavinnu í Háskóla Íslands þar sem markmiðið var að auka framleiðni og nýtingu í sjávarútvegi. Fyrirtækið var stofnað árið 1983, tveimur árum síðar opnaði fyrirtækið söluskrifstofu í Kanada og árið 1992 er það skráð í Kauphöll Íslands.

Árni fjallaði um uppskrift að árangri á borð við þann sem Marel hefur náð og taldi upp eftirfarandi atriði

  • Vel menntað starfsfólk
  • Aðgangur að fjármagni
  • Stöðug nýsköpun
  • Markaðssókn og aðgangur að erlendum mörkuðum
  • Stöðugt og fyrirsjáanlegt efnahagsumhverfi

Árni snéri sér að því búnu að sóknarfærum í alþjóðageiranum, en markmið Íslands er að hann standi undir 18% af VLF árið 2030. Hann sagði eflingu alþjóðageirans lykil að auknum varanlegum hagvexti og kaupmætti heimila og með því mætti ná fram skuldastöðu þjóðfélagsins sem er til jafns við Norðurlandaþjóðirnar.

Fyrirtæki í alþjóðageiranum á Íslandi búa hins vegar við takmarkað aðgengi að fjármagni, þau búa við örmynt sem ekki er gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum, bein erlend fjárfesting er við frostmark, Íslendingar fjárfesta nánast ekkert erlendis og hlutabréfamarkaðurinn er lítill í hlutfalli við VLF. Gjaldeyrishöft takmarka verulega vaxtarmöguleika þessara fyrirtækja, en vöxtur Marel átti sér stað á þeim tíma þar sem engin höft voru á flæði fjármagns inn og út úr landinu.

Árni lagði mikla áherslu á að gera breytingar í skólakerfinu, en hann sagði stöðuna grafalvarlega og framleiðni í íslenskum skólum ekki á pari við nágrannalönd okkar. Munurinn á aldri við útskrift úr framhaldsskóla og grunnnámi í háskóla degur verulega úr samkeppnishæfni. Áskoranir sem alþjóðageirinn stendur frammi fyrir endurspeglast einnig í skorti á tæknimenntuðu starfsfólki, en Árni sagði áherslu á raungreinar í íslenskum grunnskólum mun minni en á Norðurlöndum.

Aðalskilaboðin úr erindi Árna Odds eru þau að þjóðfélagi allt mun njóta góðs af auknum umsvifum alþjóðageirans og því sé tími til kominn að gera þær þörfu breytingar sem þarf til þess að efnahagur landsins nái að blómstra. Þar þurfa fyrirtæki landsins, einstaklingar, samfélagið, menntakerfið og ríkissjóður að vinna saman til að 15 þúsund ný hálaunastörf verði til á næstu 16 árum. 

Glærur Árna Odds Þórðarsonar eru aðgengilegar hér.

Upplýsingarit Viðskiptaráðs um alþjóðageirann má sækja hér.

Erindi Árna Odds Þórðarsonar er aðgengilegt á Youtube-síðu Viðskiptaráðs.

Myndband um Marel úr erindinu má nálgast hér.

Tengt efni

Hætt við að íslenskir neytendur beri kostnaðinn á endanum

Viðskiptaráð telur brýnt að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra miðla. ...
7. jún 2024

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Tækifæri fólgin í færri og stærri sveitarfélögum

Fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs dregur úr hvötum til sameiningar og hagræðingar í ...
18. feb 2022