Skaðleg áhrif stimpilgjalda

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarp um stimpilgjöld.

Viðskiptaráð fagnar því að Alþingi taki fyrir stimpilgjöld enda hefur ráðið lengi talað fyrir afnámi þess. Í skoðun Viðskiptaráðs frá 2015: „Leyndir gallar fasteignagjalda“ [1] er sérstaklega fjallað um áhrif stimpilgjalda og færð rök fyrir því að þeir hafi skaðlegri áhrif á almenna velferð en aðrir skattar. Stimpilgjöld hækka viðskiptakostnað sem dregur úr veltu og veikir verðmyndun á einum stærsta, ef ekki stærsta, eignamarkaði á Íslandi [2]. Þannig gera stimpilgjöld það dýrara en ella fyrir fjölskyldur að bregðast við breyttum aðstæðum, t.d. vegna barneigna eða atvinnu. Séu erlendar rannsóknir yfirfærðar á Ísland gæti afnám stimpilgjalds á fasteignaviðskipti einstaklinga aukið veltu um meira en 10% [3]. Aukin velta gæti stutt við fasteignamarkaðinn til framtíðar, sérstaklega ef aðstæður versna í efnahagslífinu sem dregur gjarnan úr veltu. Spyrja má hvort fasteignamarkaðurinn hefði ekki tekið hraðar og betur við sér í kjölfar fjármálakreppunnar ef stimpilgjöld hefðu ekki verið til staðar. Þannig hefði líklega skapast fyrr hvati til íbúðauppbyggingar og ef svo er væri minni skortur á íbúðarhúsnæði í dag. Einnig má nefna að stimpilgjöld draga úr hvatanum til að þétta byggð þar sem þau leggjast á byggingar en ekki lóðir. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar fjölgar landsmönnum um 90 þúsund til ársins 2050 og því er skynsamlegt að skapa hvata til að byggja þéttar á höfuðborgarsvæðinu en raunin hefur verið síðustu áratugi.

Ennfremur leggjum við til að stimpilgjald á fasteignaviðskipti lögaðila verði endurskoðað samhliða afnámi stimpilgjalds á íbúðakaupum einstaklinga. Öll skattlagning á fyrirtæki og stofnanir endar með einum eða öðrum hætti á neytendum auk þess sem sömu rök eiga almennt við um skaðleg áhrif stimpilgjalds á lögaðila.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.


[1] Sjá hér: http://vi.is/%C3%BAtg%C3%A1fa/skodanir/leyndir_gallar_fasteignagjalda.pdf

[2] Heildarfasteignamat íbúðarhúsnæðis er 4.980 ma.kr., í samanburði er markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands innan við 1.000 ma.kr.

[3] Á blaðsíðu fjögur í Leyndir gallar fasteignagjalda er vísað til rannsókna í Bandaríkjunum og Kanada þar sem hækkun stimpilgjalds um 1% af kaupverði hefur leitt til að velta minnki um 8-20%.

Tengt efni

Hvað er í alvörunni að gerast á fasteignamarkaði?

Orsakir verðhækkana, framboðshorfur, hátíðnigögn, sviðsmyndir og fleira
11. nóv 2021

Ný útgáfa hagskýrslunnar „The Icelandic Economy 2017"

Ný útgáfa skýrslunnar „The Icelandic Economy: Current State, Recent Developments ...
11. ágú 2017

Gölluð og óljós leið hlutdeildarlána

Markmið frumvarps um hlutdeildarlán eru góð en leiðin að þeim er ekki líkleg til ...
22. jún 2020